Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Erfiður sunnudagur.

hordursjalfur's picture

Erfiður sunnudagur.

 

Í gærmorgunn varð ég fyrir nettu áfalli. Ég var óvænt minntur á löngu liðinn atburð í lífi mínu. Atburð sem kostaði mig og fleiri næstum því lífið. Það sem gerst hafði vorið 1977 var að ég var svikinn um tveggja ára laun. Auðvitað var margt og meira innifalið í þessum svikum en launin því þetta var framkvæmt  á svo yfirvegaðan, margbrotinn og miskunarlausan hátt og á svo löngum tíma að ég missti um stund jafnvægið í tilverunni. Ég missti lífslöngunina. Maðurinn kallaði mig „kynvillingsdruslu"og notaði sér það að ég hafði lýst því opinberlega yfir að ég væri hommi til að fara að spyrna við þeirri kúgun sem ríkti hér á landi í garð samkynhneigðra. Mér fannst ég vera heimskasti maðurinn í veröldinni og ekki vera þess virði að lifa eftir að hafa látið blekkja mig svona. En ég sá að mér á síðasta augnablliki og ákvað að láta erfiðleikana ekki sigra mig heldur sigra þá. Það var góð ákvörðun sem leiddi síðan til vitundarvakningar og þess lífsviðhorfs sem ég hef keppst við að fara eftir síðan. 

Það tók mig tíma í gær að átta mig á áfallinu. Ég skildi ekkert í skyndilegri geðvonsku minni og neikvæðu ástandi og undraðist það. Mér leið hrikalega illa. Ég fór í Kringluna með manninum mínum og hundinum okkar til að þjálfa hann í umhverfisleikni. Venjulega nýt ég slíkra stunda. En ekki í gær. Ég átti fullt í fangi með að hafa hemil á stirfni minni og önuglegheitum. Mig langaði ítrekað og mest til að öskra á allt og alla og segja öllum hversu innantómt og ömurlegt þetta líf væri allt saman. En ég hafði hemil á mér og tókst að halda þessu ógnar neikvæða afli í skefjum. Ég nötraði allur og skalf innra með mér. En ég náði áttum.

Ég hringdi í góða vinkonu mína sem ég vissi að hafði lent í klóm svipaðs einstaklings, siðleysingja. Við ræddum málið og vorum sammála um að það sé vonlaust að takast á við slíka einstaklinga því þeim er ekkert heilagt. Þeir nota öll trixin í bókinni, eins og sagt er, til að ná markmiðum sínum.

Lækningin var að gera eitthvað jákvætt. Láta gott af sér leiða. Að breyta illu í eitthvað gott.

Þá vitiði það.