Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Um Hörð Torfa

hordursjalfur's picture

Ég var að róta í tölvunni minn áðan og þá skutlaðist upp ódagsett eftirfarandi viðtal úr DV. Læt það hér inn svona til að halda utanum efnið.

Ef það er hægt að lýsa Herði Torfasyni söngvaskáldi þá mætti kannski segja að hann hættir aldrei. Hörður er kominn á þann aldur að hann er farinn að gera grín að því en það er erfitt að trúa því þegar maður situr andspænis honum að hann sé degi eldri en fertugur.

Samt hlýtur hann að vera eitthvað eldri því það var 1970 sem hann söng sig inn í hjörtu þjóðarinnar með ódauðlegum lögum eins og Ég leitaði blárra blóma og Þú ert sjálfur Guðjón bak við tjöldin svo aðeins tvö séu nefnd af þeim aragrúa laga sem hann hefur flutt okkur gegnum árin.

Hörður hefur verið búsettur í nokkrum löndum en er alinn upp í Skólavörðuholtinu og er löngu kominn heim og býr í litlu bakhúsi í gamla hverfinu sínu. Það er óhætt að segja að það sé lítið hús því einbýlishús sem er 49 fermetrar er óneitanlega lítið. Þar innan dyra er samt nóg pláss enda sagt að þar sem er hjartarúm þar er húsrúm. Þar bauð Hörður blaðamanni upp á heilsusamlegt te úr bláum katli og þessi líka fínu vínarbrauð.

Við byrjuðum á því að tala um nýjan hljómdisk sem Hörður er að gefa út og er sá 20 í röðinni á 33 ára ferli þessa skapheita listamanns. Diskurinn heitir Elds saga og Hörður gefur hann sjálfur út en það er hið nýbakaða útgáfufyrirtæki Óttars Felix Haukssonar, Sonet sem dreifir gripnum í búðirnar.

"Nú er ég kominn á þann aldur að ég er farinn að vinna í ævisögunni, ef svo má segja," segir Hörður og hlær.

"Það er húmor að eldast. Sumir óttast aldurinn og þegar maður var ungur þá gerði maður svo mikið grín að þeim eldri en það verður fyndið þegar maður kemur þangað sjálfur. Fyrir nokkrum árum skissaði ég upp verk um mann sem er að finna sjálfan sig og kallaði Vitann. Ég skipti því niður í nokkra hluta eins og frumefnin fjögur, eld, loft jörð og vatn. Úr þessu eiga að verða fimm plötur sem hver um sig tengist því sem ég hef verið að gera gegnum lífið.

Þetta er samt ekki sjálfsævisögulegt raup heldur saga einstaklings sem litast af mínum lífsviðhorfum og kveikjur laganna eru alltaf stundir úr mínu eigin lífi."

-Hörður tekur sem dæmi eina viku úr lífi sínu þegar hann var 21 árs gamall og hafði fengið fína vinnu hjá Silla og Valda og þar á bæ vildu menn gera hann að verslunarstjóra í fyrstu sjálfsafgreiðslubúðinni á Íslandi. En það átti ekki að verða.

"Það voru mikil umbrot í mér og mér gekk vel í vinnunni og hækkaði hratt í tign en ég var ekki viss. Þetta var mikil upphefð og Silli lét mig vinna við hlið sér í vikutíma því hann vildi kynnast manninum betur sem þeir ætluðu að fela þetta hlutverk. Í lok vikunnar ræddum við saman og ég sagði honum eins og var að hjartað stefndi annað og ég gæti þetta ekki. Þá var ég byrjaður í leiklistarskólanum hjá Ævari Kvaran. Þetta varð svo kveikjan að einu laginu.

Annar söngur heitir Eldberinn. Ég var 21 árs og bjó í einu herbergi uppi í Árbæ og var reiður ungur maður sem fékk mælskuköst. Lagið fjallar um að maður verður að þora að stíga skrefin á vit ævintýranna og standa við skoðanir sínar."

-Hörður hefur víða komið við í leikhúsi, gefið út fjölda hljómplatna og verið óþreytandi við að ferðast um landið og syngja fyrir fólk og hefur ræktað þann akur lengur en flestir aðrir. Hann hefur einnig fengist við að gera vinsæla útvarpsþætti sem heita Sáðmenn söngvanna sem hafa verið á dagskrá RÚV í fimm ár og Hörður var í síðustu viku að ljúka gerð þáttar númer 200.

"Ég hafði ekki mikla reynslu af gerð útvarpsþátta en Óskar Ingólfsson gaf mér annað tækifæri til þess að þróa þessa hugmynd. Ég segi sögur af fólki sem tengist tónlist en ekki endilega tónlistarfólk. Þetta eru allt sögur af áhrifavöldum og ég reyni að segja sögur af lífsbaráttu þessa fólks."

Hörður hefur haft það fyrir sið árum saman að halda hausttónleika í Reykjavík og stundum verið í Borgarleikhúsinu eða Íslensku óperunni en að þessu sinni verða hausttónleikar Harðar haldnir í Austurbæ eða Austurbæjarbíó eins og flestir eru vanastir að kalla það merka hús.

"Þessir tónleikar verða 12. september og fljótlega eftir það legg ég af stað með gítarinn út á land. Með þessu staðarvali vil ég sérstaklega vekja athygli Reykvíkinga á því hve nauðsynlegt er að forða Austurbæjarbíói frá því að verða rifið eins og nú stendur til.

Ég vil safna saman listafólki og bjarga þessu húsi. Borgin getur ekki skotið sér undan ábyrgð í þessu máli. Það er ekkert annað hús eins og þetta í borginni. Þarna muna allir eftir miðnætursýningum, leiksýningum. tónleikum, bíósýningum og ég veit ekki hvað. Ég man eftir mér þarna í þrjúbíóum á framhaldsmyndum, Frumskóga Jim eða eitthvað þessháttar og ég man eftir mér baksviðs að tala við Steinku Bjarnadóttur söngkonu, mágkonu mömmu og Hallbjörgu systur hennar og það hafði mikil áhrif á mig að hitta þessa listamenn og komast í snertingu við þetta andrúmsloft. Þarna sá ég Tommy Steele í bíó, hitti Frankie Lyman sem var svartur bandarískur rokkari og mörgum fleiri.

Ég vil bjarga þessu húsi og þeim fína hljómburði og ágætu aðstöðu sem þarna er og stendur framar sumum þeim húsum sem borgin er að styrkja í dag eins og Loftkastalann.

Þarna mætti vera veitingastaður eins og Silfurtunglið var í gamla daga og þarna eru mörg kjörin tækifæri fyrir metnaðarfullt fólk. Svo þarf í guðsbænum að taka málninguna utan af því. Það var illa gert að klessa henni á."

-Hörður segir að það séu yfirleitt um 30 staðir utan Reykjavíkur sem hann heldur tónleika á í hverju ferðalagi. Hann viðurkennir að vera gríðarlega þrjóskur í sínu tónleikahaldi.

"Ég kom stundum í gamla daga einn með gítarinn, átti ekkert söngkerfi og það mætti kannski einn, svo við vorum þrír, ég, gítarinn og einn hlustandi. Það var ekki alltaf gaman en þá kemur maður bara aftur og aftur þangað til fleiri fara að mæta. Í dag eru það þúsundir manna sem eru fastagestir á öllum tónleikum sem það fær kost á.

Tilgangurinn í mínu starfi er að ræða við fólk. Mín listsköpun er samræða við áheyrandann. Það var oft erfitt í gamla daga þegar það kom fyrir að það var hrækt á mann og manni hótað en þá sagðist ég bara koma aftur og gerði það alltaf. Ég hef séð mikla breytingu á jafnvel heilum bæjarfélögum í gegnum tíðina. Ég vildi geta sagt að það væri mér að þakka en svo er ekki."

-Hörður fer að rifja upp það sem hann kallar "frostpinnasamfélag" fyrri ára. Þá var allt sem ekki var sérstaklega leyft með þar til gerðri reglugerð stranglega bannað. Samfélagið var frosið og fábreytt og fáir þorðu að hafa skoðanir sem stungu virkilega í stúf við það viðurkennda.

Það var í þessu samfélagi sem Hörður Torfason kvaddi sér hljóðs árið 1975 og kom fram í umtöluðu tímamótaviðtali í Samúel og talaði opinskátt um samkynhneigð sína. Í kjölfarið varð gríðarlegt fjaðrafok og uppistand og er líklega sanngjarnt að Hörður hafi með þessu viðtali lagt feril sinn sem leikara, söngvara og listamanns í rúst og hafi verið mjög mörg ár að byggja hann upp á ný og í kjölfarið flutti hann úr landi eða flúði öllu heldur land.

"Það var óneitanlega erfitt og þetta var ekki vel unnið viðtal ef út í það er farið. Næstu þrjú ár á eftir voru í rauninni miklu erfiðari en þau harkalegu viðbrögð sem það vakti en þá var ég að leysa það verkefni að stofna Samtökin 78 til þess að koma mannréttindabaráttu samkynhneigðra á rekspöl. Það var mikil og erfið barátta. Ég held að það hafi orðið samtökunum til happs að við völdum okkar góðan formann í fyrstu sem var Guðni Baldursson. Það er honum að þakka að samtökin lifðu."

-Þegar Hinsegir dagar voru haldnir í Reykjavík á dögunum með þátttöku tugþúsunda var Hörður fenginn til þess að setja samkomuna og syngja tvo söngva. Var það heiðursvottur vegna brautryðjendastarfs hans á þessu sviði?

" Ég tek það þannig og er þakklátur fyrir að fólk er að gera sér grein fyrir hversu miklu ég þurfti að fórna á sínum tíma. Án þeirrar fórnar væru málin ekki komin svona vel á veg. Það var gleðilegt að virða fyrir sér tugþúsundir manna sem komu til að sýna málstað okkar samstöðu. Þetta sýnir mér og sannar að fórn mín var ekki einskis virði. Framtakið Hinsegin dagar eru frábært framlag þar sem baráttan er háð með gleði í hjarta, söng á vör og öllum regnboganslitum mannlífsins undir kröftugri stjórn Heimis Más og alls hins stóra hóps ónefnds kraftaverkafólks. Svona á lífið og baráttan að vera! Og Samtökin ´78 bjarga sér í dag vel undir forystu mjög hæfra einstaklinga. Hitt er svo aftur annað mál að þótt umburðarlyndi hafi aukist þá er mikið starf óunnið í baráttunni fyrir mannréttindum samkynhneigðra. En höfum hugfast að frelsi þýðir að við berum fulla ábyrgð á orðum okkar og athöfnum í hvívetna.”

polli@dv.is

 

Hörður Torfason. Apríltónleikar - Í Iðnó 8.apríl 2010

Ég fór í kvöld á tónleika með Herði Torfasyni í Iðnó, tónleikar þann 8. apríl, sem því miður alltof margir misstu af. Þannig er þetta alltaf með listina og sköpunina. Þeir sem hafa slíkt að flytja vita aldrei hversu mörgum tekst að mæta. Salur Iðnó faðmaði þó algerlega svo fagurlega þessa mögnuðu tónleika og við vorum nógu mörg og miklir aðdáendur listamannsins til að eiga þarna magnaða kvöldstund. Hörður Torfason er sérstök og mjög stór stærð í íslenskri menningu og ein sú langheiðarlegasta og róttækasta og það er kannski þess vegna sem hið íslenska samfélag hefur svo oft á í erfiðleikum með að meta gjafirnar sem hann færir því. Hann er maður sem segir okkur, á svo snilldarlegan hátt, fagran og listrænan, hvað er rangt í því sem við gerum, hugsum og skiljum. Hörður Torfason leyfir ekki íslensku samfélagi að leggjast í leti í því hvernig það hugsar og hann leyfir því ekki að damla sjálfumglöðu í fordómum eða bulli. Hann er og hefur alltaf verið “debattör”. Hann mótmælir, hann safnar saman kýlunum og stingur á þau öll í einu, en samt í svo hárfínu formi og snilldarlega að það verður skemmtun en ekki skammarræða. Þetta tekst honum með gítargripum sínum og haglega ortum textum. Hann kann að taka hið rammíslenska, brestina, sjálfumgleðina, ástina, náttúruna, tilveruna, manneskjuna, draumana, hið sorglega, skoplega, barnslega, tröllslega, dvergslega og mennska sem íslenskt samfélag og hugarfar er ofið úr og skapa úr því frásögn í tónum þar sem maður og gítar spila á allt litrófið sem áheyrandinn þekkir úr eigin lífi, úr eftirkeimi minninga liðinna kynslóða og horfins samfélags eða þá í brennandi og sárum flækjum samtíðarinnar sem fyllir flesta Íslendinga sem nú lifa meiri ógleði en landsmenn hafa þurft að þola lengi og líka ógleði af nýrri gerð samanborið við það sem áður hefur á þjóðinni dunið. Það er einmitt þetta sem gerir Hörð Torfason að einum að okkar mögnuðustu tónlistarmönnum. Hann segir satt. Hann lýgur ekki. Hann forðast ekki að nefna hið óþægilega. Hann leyfir okkur ekki að vaða áfram í þægilegri sjálfsblekkingu. Íslendingum kann þess vegna að þykja hann óvæginn og vilja forðast hann, ekki hlusta á hann, því sannleikanum er hver sárreiðastur. Tímarnir eru þannig núna að við eigum að hlusta, líka á það sem er óþægilegt. Við eigum ekki að missa af röddum þeirra sem hafa eitthvað fram að færa, þeirra sem sem eru heiðarlegir. Þess vegna eigum við t.d. að hlusta á fallega tónlist og sögur Harðar Torfasonar baráttumanns, mótmælanda “par exellence”, söngvaskálds og sagnaskálds; Manns sem færir okkur bæði list og veruleika í senn og það á aðeins einni kvöldstund, á tveimur klukkutímum. Núna er sá tími hjá okkur í þessu landi að við eigum að horfa til listarinnar, meta hana og þá sem hana flytja af snilld. Það er núna sem augnablikið er sem höfum til að dá okkar listafólk og flínkustu gagnrýnendur. Aðdáun á listamönnum þegar þeir eru látnir sem ekki voru metnir að verðleikum á meðan þeir voru á lífi hafa verið endurtekin nógu oft hjá alltof mörgum þjóðum. Núna eiga Íslendingar að safna sér saman að baki sínu gagnrýnu og færu listamönnum. Núna en ekki seinna. Þeir eru beittasta röddin og heiðarlegasta andsvarið sem við höfum í því ástandi sem okkur hefur verið komið í nú um þessar mundir. Hörður Torfason er einn af Íslands merkilegustu mannréttindafrömuðum, eins og allir vita sem þekkja hans baráttusögu, en hann er líka tilfinningaríkur og orðhagur tónlistarmaður sem býður áheyrandum upp á eðaltónlist og texta sem taka yfir svo víðfeðmt litróf tilverunnar að hægt er að lenda í öllum víddum, eða svo vitnað sé í hans síðustu útgáfur þá er efniviðurinn bæði eldssaga, loftssaga og jarðssaga. Og sem betur fer fyrir fólk sem elskar góða tónlist sem hefur eitthvað að segja þá veit ég að það eiga eftir að koma frá Herði fleiri diskar sem munu fanga frumkraftana í tilverunni og mannshjartanu.  

April 9, 2010 by unnurbirnakarls 
http://unnurbirnakarls.wordpress.com/2010/04/09/horður-torfason-apriltonleikar/

Formáli að Hugflæði

Áhrif Harðar Torfa í íslensku tónlistarlífi eru mikil, en af flestum vanmetin. Í okkar litla samfélagi er það ekkert vandamál að verða þekktur og öðlast þann vafasama heiður að kallast frægur. En það þarf kjark og hugrekki til að standa upp og vera trúr sjálfum sérog listinni og það er einmitt það sem Hörður hefur gert. Það sem hefur einkennt verk hans í gegnum árin er heiðarleiki gagnvart sjálfum sér og okkur sem sitjum heima og hlustum.Þegar ég heyrði þessa plötu gerði ég mér grein fyrir að þetta var einmitt plata sem hefði getað hugsað mér að gera sjálfur.Allt við þessa plötu er öðruvísi en við eigum að venjast hérna heima. Fagmanleg "pródúsjón", frábær spilamennska og öðruvísi "sánd" ásamt góðum textum og lögum gera hana að því sem hún er. Hugflæði Harðar verður að hugflæði okkar. Hann opnar okkur heim sem var og er. Sirkus með línudönsurum, trúðum og sirkustónlist. Hann sýnir okkur frostið og hitann og brotin hjörtu. Han fær okkur til að verða börn aftur. Hann sýnir okkur einmanaleikann og fegurðina og það eina sem þarf til að að öðlast þessa reynslu er að hlusta.
Þetta eru sundurlaus orð um eina bestu plötu íslenskrar vísnatónlistar, en þessi plata er sönn. Ég óska þeim sem kaupa þessa plötu þess sama og henti mig þegar ég heyrði hana, gleði og ánægju yfir því að svona tónlist skuli vera samin enn í dag, á tímum þegar íslenskir tónlistarmenn eru að gera sjónvarpsauglýsingar og lög samkvæmt stöðluðum formúlum, í stað þess að opna dyrnar hjá sér og hleypa fersku lofti inn.
Hörður hefur verið umdeildur maður í okkar samfélagi, sem fylgir þeim sem ryðja brautina. En fyrir vikið hefur hann eignast trúa aðdáendur í gegnum tíðina og með þessari plötu kemur hann til með að stækka þann hóp verulega. Opnaðu hugann. Farðu í ferðalag með Herði og þér líður betur.

Bubbi Mortens. (1998)

Hver er Hörðurinn?

"Að koma til dyranna eins og maður er klæddur er hluti af því lífsmynstri sem ég hef valið mér sem trúbadúr" sagði Hörður Torfa, nestor íslenskra farandsöngvara, í viðtali við Morgunblaðið í desember 1993. Þessi orð Harðar sjálfs lýsa honum kannski betur en nokkur þau, sem aðrir hafa um hann haft í gegnum tíðina. Er þó nógu af að taka , því mikið hefur verið rætt og ritað um þennan fyrsta - og að vissu leyti eina - trúbadúr okkar íslendinga á þeim ríflega aldarfjórðungi sem hann hefur staðið í sviðsljósinu. Hörður hefur verið dáður og virtur sem tónlistarmaður allar götur frá því að hann sendi frá sér sína fyrstu plötu árið, 1970, en hataður og smáður af smásálum allra stétta síðan hann kom " út úr skápnum " í frægu viðtali við tímaritið Samúel fimm árum síðar. Viðbrögðin við því urðu svo harkaleg að Hörður neyddist að lokum að flýja af landi brott fyrir þá sök eina að vera það sem hann er. Það er því ekki nóg með að Hörður sé fyrsti trúbadúr og fyrsti landsþekkti homminn, sem hóf upp raust sína og krafðist þess sjálfsagaða réttar sérhvers manns að fá að lifa lífi í sátt við guð og menn og sjálfan sig. Hann er líka fyrsti íslendingurinn frá upphafi, sem flæmdur er úr landi fyrir aðrar sakir en glæpaverk og stjórnmálaskoðanir.

Ekki svo að skilja að það hafi verið Herði eitthvert kappsmál að gerast annar samviskuflóttamaður þjóðarinnar á þessari öld, sá fyrsti síðan Þórbergur Þórðarson hrökklaðist til Svíaríkis um árið, fyrir guðlasts sakir og kommúnisma. Sú staðreynd, að honum var ekki vært í sínum ranni eftir að hann tjáði sig um "hómósexúalismann" segir meira um meðbræður hans en Hörð sjálfan. En þrátt fyrir að Hörður flytti af landi brott og byggi í kóngsins Kaupmannahöfn um fimmtán ára skeið, var hann síður en svo búinn að gefast upp á löndum sínum, og enn síður fyrir þeim. Hann reiknaði alltaf með að flytja aftur heim þegar fram liðu stundir, og vann að því hörðum höndum með fulltingi góðra manna að auka skilning Íslendinga á málefnum samkynhneigðra og draga úr fordómum í þeirra garð. Hann var helsti hvatamaður að stofnun Samtakanna´78, sem barist hafa fyrir réttindum homma og lesbía á Íslandi frá fyrsta degi og munu sjálfsagt halda því áfram þar til land fer í eyði. Þessi barátta hefur skilað árángri. Hversu miklum sést kannski best á því, að í dag er Hörður Torfa fyrst og fremst þekktur fyrir það sama og hann var í upphafi; tónlist sína.

Hann var byrjaður að syngja annarra manna ljóð við eigin lög, sem hann plokkaði undir á gítarinn, um miðjan sjöunda áratuginn. Árið 1967 hóf hann hins vegar nám við Leiklistarskóla Þjóðleikhússins og var þá bundinn bráðabirðarendi á söngferilinn. Leiklistarnemum var nefnilega bannað að koma fram á sviði utan veggja leikhússins, og það var því ekki fyrr en hann útskrifaðist vorið 1970 að hann gat látið til sín taka í tónlistarheiminum að einhverju marki. En þá gerði hann .það líka svo um munaði. Fyrsta platan hans Hörður Torfa syngur eigin lög eða " bláa platan" eins og hún er gjarnan kölluð, var gerð þetta sama ár og kom út ári seinna og sló þegar í gegn. Á þessari fyrstu plötu fór Hörður ekki troðnar slóðir frekar en seinni daginn, var sjálfur sér nógur með röddina og gítarinn einan að vopni, utan einstaka bakrödd hér og þar. Þótti þetta býsna óvenjuleg plata á þessum tíma, þegar flestir íslenskir tónlistarmenn aðrir einbeittu sér annars vegar að " bítli" ýmiss konar, og þjóðlagasöng hins vegar. Þessi plata seldist í þúsundum eintaka og hefur um langt árabil verið flokkuð sem ein af örfáum klassískum perlum í íslenskri dægurtónlistarsögu.

Önnur plata Harðar innihélt einnig lög hans við annarra manna ljóð, en upp frá því tók skáldið í honum að færa sig uppá skaftið og krafðist áheyrnar í sama mæli og lagasmiðurinn. Síðan hefur Hörður sent frá sér 13 plötur og geisladiska með frumsömdu efni. Á þessum plötum hegur Hörður verið nánast einn á ferð með gítarinnn sinn og munnhörpuna, en á nokkrum þeirra hefur hann látið svo lítið að hleypa öðrum að með slagverk og strengi, raddir og blástur og bumbuslátt. Þessar undantekningar breyta því þó ekki að Hörður var og er og verður alltaf fremstur íslenskra túbadúra.

Þeir eru býsna margir og misjafnir sem skreytt hafa sjálfa sig þessum titli síðan Hörður reið á vaðið, reyndar svo margir, og umfram allt svo misjafnir að frumherjinn er hættur að kalla sig túbadúr og kýs heldur að lýsa sjálfum sér sem syngjandi skáldi. Á meðan flestir hinna svokölluðu trúbadúra flakka á milli landsins kráa og fara misjafnlega með Dylan og Megas og Donovan fyrir misdrukkna kráargesti, kemur Hörður sér fyrir í félagsheimilum og leikhúsum með gítarinn sinn og syngur ljóð sín af þeirri einlægni og innlifun sem einkennt hefur hann frá upphafi fyrir fólk sem komið er til að hlusta og horfa. Því Hörður gerir meira en að syngja ljóð sín og spila undir á gítar. Leikarinn í honum er aldrei langt undan, og reyndar má vart á milli sjá á stundum, hvort maður staddur á tónleikum eða leiksýningu. Það sem eykur enn á þessa spennu, sem alltaf myndast á milli leikarans Harðar Torfa og tónlistarmannsins Harðar Torfa þegar þeir stíga saman á sviðið, er það, að skáldið Hörður Torfa er alltaf mitt á milli með rímaðar sögur á hraðbergi.

Sem betur fer kunna þeir að skipta með sér verkum, þremenningarnir, og er það sjálfsagt ekki síst að þakka þeim fjórða í félagsskapnum; leikstjóranum Herði Torfa. Því þótt han byggi að öllu jöfnu í Danmörku, þá kom hann jafnan heim hvert haust til tónleikahalds og í kjölfar þeirra fylgdu uppsetningar leikrita víðsvegar um landið. Leikstjórnarverkefni hans eru nú orðin nær 50 talsins og sjálfur hefur hann samið nokkur leikrit auk óteljandi texta og sönglaga fyrir leikhús.

Útkomunni úr samvinnu þeirra fjórmenninga, Harða, Harðar, Harðar og Harðar, verður ekki lýst með nokkrum orðum á tölvuskjá. En það má upplifa hana í september- byrjun ár hvert í höfuðborginni Reykjavík í Borgarleikhúsinu, þegar Hörður heldur sína árlegu stór - tónleika. Og svo auðvitað á hverjum þeim stað, sem Hörðu sækir heim á tíðum tónleikaferðum sínum um landið allt. Hann var líka fyrsti íslenski tónlistarmaðurinn sem lagði land undir fót með reglulegu millibili og spilaði fyrir fólkið " útá landi" og hafa margir fylgt þessu fordæmi hans sem öðrum.

Hörður hefur einnig haldið fjölmarga tónleika á Norðurlöndum og víðar, unnið að málefnum alnæmissjúklinga, lagt fjölmörgum líknar - og félagssamtökum lið með ýmsum hætti, og er þá aðeins fátt eitt talið af öllu því, sem hann hefur tekið sér fyrir hendur gegnum tíðina.

Eftir tuttugu ára baráttu fyrir málstað homma og lesbía á Íslandi, fimmtán ára útlegð í Danmörku, 13 plötur, ótal leiksýningar og tónleika hérlendis jafnt sem erlendis, kom svo loksins að því síðastliðið sumar, að Herði voru veitt fyrstu verðlaunin á ferli, sem spannar aldarfjórðung. Það má heita táknrænt, að upphefð hans, eins og margra góðra manna, kom að utan. Þann 16. júni 1995 fékk han Þórshamarsverðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Stockhólmi. Þetta eru mannréttindaverðlaun sem veitt eru árlega af menningarsamtökum samkynhneigðra á norðurlöndum; Tupilak.

Í desember síðastliðnum bættu Samtökin´78 svo um betur og veittu Herði Frelsisverðlaun Samtakanna fyrir framlag sitt til jafnréttisbaráttu samkynhneigðra. Í janúar 1966 ákveður síðan stjórn alheimssamtaka samkynhneigðra, ILGA, sem telja milljónir manna, að heiðra Hörð og bjóða honum titilinn " Cultural Ambassador" en þetta starf þýðir að hann er kynntur um allan heim og mannréttindasamtök alsstaðar hvött til að bjóða Herði í heimsókn og fá hann til að halda tónleika. Um leið og Hörður þáði þennan titil þáði hann fyrsta boðið um tónleikaferð til Norðurlanda og Balkanskaga í júni ´96.

Í tónlistarheiminum nýtur Hörður enn sömu virðingar og forðum, og sem betur fer hefur þeim fækkað mikið sem fæð leggja á homma og lesbíur á þessum tuttugu árum sem liðin eru frá birtingu viðtalsins í Samúel. Fordómar í garð samkynhneigðra eru þó alltof miklir hér á landi eins og víðast hvar annar staðar. Og á meðan svo er mun Hörður halda áfram að syngja löndum sínum sögur sínar, vísa þeim veginn, benda á bresti í eigin fari og annnarra, hlæja að þeim - en þó aðallega með þeim - og lesa þeim pistilinn. Hann hefur ekkert að fela, en mikið að segja, og gerir það umbúðalaust, án tilits til þeirra afleiðinga sem það hefur fyrir hann persónulega. " Ef ég hefði látið kyrr liggja, fengið mér hvíta skyrtu og bindi og horfið inní fjöldann, eins og allt stefndi að, þá hefði ég svikið sjálfan mig." sagði Hörður, þegar hann var spurður hvort hann hefði aldrei séð eftir því að ganga fram fyrir skjöldu á sinum tíma og viðurkenna samkynhneigð sína. Og þótt ekki sé til tæmandi svar við spurningunni, hver er Hörður Torfa, þá geta menn verið vissir um hann er nákvæmlega sá sem hann lítur út fyrir að vera.

Ævar Örn Josepsson

Söngvaskáld - Lög við ljóð Halldórs Laxness

Hörður Torfa varð til þess að færa ljóð góðskáldanna úr  bókahillunum í betristofunni og inn  í herbergin til okkar krakkanna; hann söng þau fyrir okkur. Þegar hann var að koma fram fyrst með lögin sín þótti alls ekki við hæfi að syngja lög Tómasar og Davíðs,  og ekki einu sinni Steins eða Halldórs, öðruvísi en klæddur í smóking eða kvöldkjól, eða að minnsta kosti með alvörusvip. Lögin voru nokkurs konar liederar og textinn skildist aldrei vegna þess að söngvararnir höfðu munninn svo mikið opinn – til að mynda fagran hljóm skildist manni. Það var einkennileg og frelsandi tilfinning á þessum árum þegar það var svo skýrt hvað mátti og hvað mátti ekki, að heyra Hörð plokka gítarinn og syngja dreyminn, sposkan, baráttuglaðan eða ljúfan og gera þessi ljóð að sínum – og að okkar. Hann færði þessi ljóð nær okkur vegna þess að hann fór nær þeim en áður hafði tíðkast. Hann innleiddi hér nýjan skilning á sambandi ljóðlistar og söngs.

Það er vegna þess að Hörður er trúbador, söngvaskáld eins og hann nefnir það sjálfur, samkvæmt ævafornri hefð, þar sem flytjandinn er ekki umfram allt söngvari og ekki umfram allt skáld, heldur – söngvaskáld. Hann stendur því í sérstöku sambandi við ljóðlistina, skynjar hana á frumlægan hátt, dregur fram sönginn sem býr í allri ljóðlist, því að  hvað sem hver segir þá er hún upphaflega söngur sem ómar í huga skáldsins. Sennilega er það þetta sem veitir Herði visst forskot á þá menn sem undanfarin ár hafa verið að búa til popplög við ljóð Steins og Tómasar og þröngva bragnum stundum inn í afkáralegar línur: hann dregur nefnilega fram ljóðlistina í söngnum; hefur rótgróna tilfinningu fyrir brag, sjálfri kveðandinni. Trúbadorinn er alltaf að flytja okkur ljóð, gleymir aldrei að orðin verða ekki bara að heyrast, heldur líka að  njóta sín.

Ljóð Halldórs Laxness henta  mörg hver afar vel til söngs, enda hafa orðið til úr þeim söngperlur sem þjóðin ann eftir menn á borð Jón Þórarinsson, Jón Nordal, Gunnar Reyni Sveinsson, Atla Heimi og Jón Ásgeirsson. Samt þykjast smekkmenn sjá á þessum ljóðum ýmsa hnökra. Halldóri hefur stundum verið legið á hálsi að yrkja stirt. Kannski villir það mönnum sýn hversu umbúðarlaus ljóðin eru – hversu beint þau koma sér að efninu, hversu lítt Halldór er gefinn fyrir að hjúpa hugsun sína í flókið myndmál eða beita viðurkenndum málbrellum. Þessi ljóð hafa hraða hins óbrotna söngs og eru meiri börn hinnar tæknivæddu 20. aldar en blasti við í fljótu bragði. Þau eru gersamlega á skjön við íslenska ljóðhefð og komu mönnum fyrir sjónir sem bæði ófáguð og furðuleg. Og hafa sennilega fyrir vikið lifað lengur en ljóð settlegri skálda sem notuðu hefðbundara ljóðmál.

Lög Harðar eru einföld og prjállaus og þjóna vel til að skila þessum einföldu og prjállausu ljóðum Halldórs sem oft eru sett fram eins og nokkurs konar nytjaljóðlist – notuð í sögunum þegar vantar ljóð. Og erfitt er að hugsa sér búning sem hæfi þeim betur en útsetningar Vilhjálms Guðjónssonar. Hér nýtur Hörður sín vel sem sá afbragðs gítarleikari sem hann er en um leið er hér allt fullt af  skemmtilegu nostri við smáatriði svo að útkoman verður í senn fínleg og hófsöm.

Kvæðið Á Þjóðveginum er undir lok bókarinnar Höll Sumarlandsins sem er annað bindi Heimsljóss. Ólafur Kárason á þá að baki viðburðaríkt sumar. Vegmey æskuástin hans hefur nú verið send burt og húsið sem hann bjó í – Höll Sumarlandsins – er brunnið til kaldra kola og sást þar líka síðast til “hins Elífa”, róna sem drakk hofmannsdropa og sagði fátt annað en hífopp í tíma og ótíma og var þó kannski helsti sálufélagi skáldsins. Kvæðið er að sögn Halldórs í Kvæðakveri ort í Moskvu árið 1938 og þar færir hann sér skemmtilega í nyt fútúrismann rússneska í lok kvæðisins þegar allt leysist upp í endaleysu, enda líf skáldsins rústir einar.

Erfiljóð Einars frá Undirhlíð eftir Rósu er úr Sjálfstæðu fólki og er ort af þessu sveitaskáldi til minningar um konu Bjarts í Sumarhúsum: “Einar í Undirhlíð rétti Bjarti sín venjulegu skyldueftirmæli á lúðu bréfi, og Bjartur leit grettinn á fyrirsögnina, fyrirfram vantrúaður á stefnu vinar síns í skáldskap, stakk því síðan fálega uppundir sperru.” Lagboðinn sem gefinn er í bókinni er Ó þá náð að eiga Jesúm og er það ástsæla lag líka sungið hér.

Fiskreiturinn er líka lagt sögupersónu í munni, er úr Húsi skáldsins, þriðja bindi Heimsljóss, þar sem skáldið Ólafur Kárason þarf að að yrkja ástarljóð frá Jens Færeyingi til Jórunnar í Veghúsum og þar sem Jens er ekki ýkja rómantískur maður verður útkoman meira eins og heimsósómakveðskapur en mansöngur, þó að í lokin andvarpi skáldið sjálft.

Frá Winnipeg er ort árið 1927 þegar Halldór dvaldi þar á Íslendingaslóðum á leið frá katólsku yfir í faðm sósíalismans.
Hallormsstaðaskógur er frá árinu 1926 og var ort á Egilsstöðum að sögn Halldórs í Kvæðakveri. Vinsæll rútubílasöngur hefur oft verið raulaður við þennan einkennilega þjóðlega súrrealisma og þar er ein frægasta ljóðlína Halldórs: “Ég býð þér dús, mín elskulega þjóð”.

Holmens Havn heitir eftir aflagðri einokunarhöfn þar sem menn höfðu margir reynt að drekkja sér og er að sögn Halldórs ort árið 1927 til að telja sjálfsmorðingjum hughvarf.

Plássið er að sögn Halldórs ort á leið frá Bolungavík árið 1930 og fellt inn í Sölku Völku.

Reikníngsskil var eitt af nokkrum ljóðum sem Halldór orti þegar hann dvaldi með Magnúsi Á Árnasyni í San Francisco sumarið 1928.

Tvífarinn er frá árinu 1923 og að sögn Halldórs þýðing á kvæði Heines Der Doppelgänger. Halldór mun að auki hafa hugsað sér að þýðingin falli að lagi Schuberts við ljóð Heines.

Tvær ferskeytlur og viðlag er frá árinu 1927 og  vill Halldór ekkert skýra nánar tildrög þessa drungalega ljóðs.

Um hina heittelskuðu er sennilega eitt af ástsælustu ljóðum Halldórs, ort árið 1936 í Kaupmannahöfn og fyrsta ástaljóðið sem Ólafur Kárason yrkir fyrir annað fólk, að þessu sinni fyrir kvalara sinn, Nasa. Launin láta ekki á sér standa: “Daginn eftir fékk niðursetníngurinn að borða einsog annað fólk.

Þar sem háfjöllin heilög rísa er frá árinu 1925 og birtist í Vefaranum mikla frá Kasmír.

Og árið kom og árið leið er ort til að nota í Fegurð himinsins, síðasta bindi Heimsljóss en Halldóri auðnaðist að eigin sögn ekki að ljúka ljóðinu svo að hann væri ánægður með það.

Guðmundur Andri Thorsson

Formáli að Bergmál 71/02

Þegar þeir Donovan og Tómas hittust í kollinum á Herði Torfa fyrir margt löngu bundu þeir honum dálítinn sveig sem hann hefur mátt draga uppúr pússi sínu á hverjum einustu tónleikum sem hann hefur haldið á vel ríflega þrjátíu ára ferli sínum sem söngvaskáld. Og það eru býsna margir tónleikar. Samt geislar af þessum sveig sem væri hann nýr í hvert skipti sem Hörður skartar honum.

Fundur þeirra Þórarins Eldjárns og Dylans í þessum sama kolli hafði líka eftirmála, enda ekki við öðru að búast þegar slíkir menn hittast undir þessháttar kringumstæðum: Guðjón stimplaði sig strax inní þjóðarsálina og hefur fylgt Herði einsog skugginn allar götur síðan. Ég veit að Hörður hefur stundum verið svolítið þreyttur á þessum vini sínum og jafnvel reynt að varna honum inngöngu á tónleika sína einstaka sinnum, en Guðjón hefur ekki látið það á sig fá. Hann laumast bara inn bakdyramegin og bíður svo þolinmóður bakvið tjöldin þangaðtil áheyrendur kalla á hann, enda ekki týpa sem lætur segja sér fyrir verkum. Líkist Herði reyndar merkilega mikið að því leyti.

Bláu blómin og Guðjón eru elst þeirra sextán laga sem hér er að finna, og skera sig líka úr að því leyti - ásamt óðnum um hina heittelskuðu -  að þau eru samin við annarra manna ljóð. Þau eru bæði af fyrstu plötu Harðar og hafa elst jafn vel og hann sjálfur. Þau eiga það hinsvegar sameiginlegt með tólf öðrum lögum að hafa verið fastagestir á tónleikum Harðar Torfasonar í gegnum tíðina, og þau tvö sem eftir eru, Blómið og Laxness-söngurinn um hina heittelskuðu, stefna að því að verða það líka.

Þessi diskur er óvenjulegur að því leyti að það voru fyrst og fremst þeir, sem hlustað hafa á Hörð í gegnum tíðina, sem réðu lagavalinu. Það byggist annarsvegar á vinsælustu tónleikalögunum gegnum tíðina og hinsvegar á óskum sem komið var á framfæri á heimasíðu Harðar í tilefni þessarar útgáfu og endurspeglar vel þann mikla og umfram allt fjölbreytilega tónlistarsjóð sem Hörður er enn að bæta í, að því er virðist án þess að blása úr nös.

Allt frá því Hörður hóf að flytja þjóðinni sína eigin texta hefur hann verið óþreytandi við að leiða okkur jafnt í gegnum lífsins lystisemdir og forarpytti fordóma og fáfræði. Hann hefur jöfnum höndum glatt hlustendur með liprum og leikandi söngvum um fegurð jarðarinnar og alls sem lifir og vakið þá til umhugsunar með hugleiðingum um illvirkja, andans jöfra og smásálir allra handa. Ekkert mannlegt er honum óviðkomandi einsog glöggt má sjá á þessum diski, þar sem hann segir okkur frá barnaníðingi, brauðstriti, blómum og fegurð steinsteypunnar og mannlífsins í henni Reykjavík. Hann bregður upp mynd sem ekki er hægt að horfa framhjá af tvískinnungi valdsjúkra pótintáta sem draga lýðinn á tálar, gerir stólpagrín að manninum í næsta húsi, dásamar ástina og lífið og tilveruna og grætur horfna vini okkar allra. Og miklu, miklu fleira.

Það, hversu ólík þessi óskalög aðdáenda Harðar eru, sem hér hefur verið safnað saman, og ekki síður öll hin lögin, sem ekki komust á þennan disk og margir munu sakna, sýnir líka glöggt  hversu breiður hópur það er, sem sækir endurnæringu, upplífgun og ánægju í söngvasjóð hans. Hann hefur ferðast um landið í ríflega þrjá áratugi í anda hins sanna förusveins, sem fer um lönd með orðið og gígjuna að vopni, aldrei með fingur á lofti, heldur spegil, töfraspegil, sem sýnir hverjum sem í hann horfir það sem trúbadorinn sér og bergmálar það sem hann heyrir. Og einsog aðrir slíkir, sem eitthvað er spunnið í, þá skilur hann eftir sig spor, hvar sem drepur niður fæti. Ósýnileg spor, sem þessvegna er aldrei hægt að afmá.         

Ævar Örn Jósepsson