Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Leiðari eftir Aðalheiði Ámundadóttur

hordursjalfur's picture

Það er því miður landlægur íslenskur plagsiður að úthýsa afburðafólki. Það er þægilegra að hafa slíkt fólk utan sviðsins því þá eru þeir sem minna geta ekki sífellt minntir á, hvað þeir eiga langt í land. Á meðan valsa aðrir um listasviðið með óverðskuldaðar nafnbætur,“ sagði Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir réttilega í minningarorðum um vin sinn, Gísla Rúnar Jónsson listamann sem lést í síðustu viku.

Við kunnum þeim svo oft litlar þakkir sem vinna landi sínu og þjóð mest gagn.

Fyrir bráðum hálfri öld kom Hörður Torfason opinberlega út úr skápnum í viðtali við tímaritið Samúel. Við tók þriggja ára undirbúningur að stofnun Samtakanna ´78, sem eiga án vafa heiðurinn af því að réttindi hinsegin fólks á Íslandi eru höfð að fyrirmynd um allan heim.

En Hörður hafði ekki lokið starfi sínu. Þrjátíu árum eftir stofnun samtakanna leiddi hann stærstu fjöldahreyfingu í sögu landsins, sem gekk skipulega til verks og steypti tugum manna í opinberum valdastöðum af stóli í kjölfar efnahagshrunsins.

Það má segja að Hörður hafi helgað líf sitt starfi í þágu þjóðarinnar, þótt hann hafi aldrei haft slík störf að atvinnu. Hann fær engin listamannalaun heldur og hefur aldrei verið sæmdur fálkaorðu. Það eru þakkirnar fyrir ævistarf Harðar.

Kannski er eðlilegt að þjóðir hati gersemar sínar meðan þær enn lifa og hætta er á nýjum uppátækjum hvern dag sem þær draga andann. Við hötum uppljóstrara, mótmælendur, listamenn og aðra boðbera óþægilegra sanninda. Allavega meðan þeir lifa og boðskapur þeirra hefur ekki síast inn í meginstrauminn. Við hötuðum Hörð Torfason þegar það var ógeðslegt að vera hommi og vorum fljót að gleyma öllu sem hann fórnaði til að ryðja brautina fyrir þá sem á eftir komu til að flytja boðskap sem þegar var orðinn samfélagslega samþykktur og Hörður fallinn á sverðið.

Við gleymum svo oft sjálfsfórn brautryðjandans sem fyrstur vekur máls á málefnum sem vekja reiði og viðbjóð. Það er mun minni fyrirhöfn að vinna að málefnum eftir að brautin hefur verið rudd og samfélagið náð úr sér hrollinum.

Heimsfaraldurinn hefur þó vonandi kennt okkur flestum að taka Kára Stefánsson í sátt, eða í versta falli viðurkenna örlæti hans og umbera hve óumræðilega óþægur, erfiður og uppátækjasamur hann er. Enginn getur lengur afneitað framlagi Kára til íslensku þjóðarinnar með góðri samvisku.

Við erum auðvitað ekki ein um þetta hatur á hæfileikafólki. Yfirburðafólk um allan heim fær iðulega að kenna á afbrýðisemi og smásálarhætti samborgara sinna. Styttan af fjöllistamanninum og snillingnum Zlatan Ibrahimovich fær aldrei að standa óáreitt í Malmö og þótt Maradona-mark Lionels Messi sé kannski fegursta mark sögunnar er óumdeilanlegt að enginn í sögu knattspyrnunnar á fleiri glæsimörk en Ibra. Hann verður fertugur á næsta ári en leikur enn listir sínar á vellinum við andköf gæsahúðaðra áhorfenda. Enginn raðar honum þó í efstu sæti bestu knattspyrnumanna sögunnar. Hann er of erfiður, of óþolandi og of góður.