Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Umgengni í Austurbæjarbíói

hordursjalfur's picture
Austurbæjarbíó er merkileg bygging og nauðsynleg öllum, flytjendum og áheyrendum, að hafa til marvíslegs flutnings tónlistar og leiklistar.
Umsjónarmönnum hússins er því ákveðinn vandi og ábyrgð á höndum. Eðlilegt er að upp komi vandamál samfara þessum rekstri og ber því að ræða vandann til að mál fari á réttan veg og allir sem að húsinu komi geti verið stoltir og ánægðir. Réttlát húsaleiga, góður aðbúnaður bæði á sviði og í búningsherbergjum, og snyrtilega viðhöldnu húsi. En málið snýr ekki aðeins að umsjónarmönnum hússins heldur öllum sem þar koma. Listafólki og gestum.
Ég hafði með ársfyrirvara pantað húsið til flutnings hausttónleika minna í ár, 10 september 2004 og ekkert nema gott um það að segja. Húsið gat ég fengið svo framarlega sem það yrði ekki rifið. Liðu nú 10 mánuðir og húsið fékk að vera uppistandandi og kominn í það söngleikur ásamt tilheyrandi lýsingar- og hljóð tækjabúnaður og sviðsmynd. Uppsetning slíks söngleiks er umfangsmikil og greinilegt að þeir aðilar höguðu aðferðum sínum á þann hátt að húsið væri þeirra. Það er röng stefna því þetta er fjölnotahús. Umsjónarmönnum hússins ber að sjá til þess að allir sem að húsinu koma gangi um á þann hátt að sýningar þeirra og umgengni bitni ekki á öðrum. Ég segi þetta sem leikari og leikstjóri til áratuga sem hef haldið hundruðir tónleika á eigin vegum og sviðsett um hundrað leikrit og hannað og smíðað jafnmargar leikmyndir og lýst sýningarnar. En hausttónleika mína í ár varð ég að ramma inn í þá aðstöðu sem aðstandendur söngleiksins höfðu skapað í húsinu. Þetta er neyðarlegt. Þetta er líkt og að Kjarvalsstaðir bjóði listamanni að halda málverkasýningu inn á milli málverka Kjarvals að því að verk hans hafi komið fyrst í húsið og lýsingin miðist við verk hans. Þetta er röng stefna og á ekki að líðast.
Sviðsmynd hvers og eins, í slíku húsi, á að vera auðveld í færslu og uppsetningu og ekki að flækjast fyrir öðrum. Lýsing í húsinu á að vera auðveldari í notkun og hluti kastaranna miðast við frjálsari notkun og viðameiri en einnar fastrar sýningar. Það er ekki mikill kostnaður að setja nokkra depilkastara (spot) í sal. Auglýsingar í forsal tilheyrandi einnhverri einni sýningu á að fjarlægja á meðan á annarri stendur. Þetta allt saman er ekkert stórvandamál ef stefna hússins er skýr.
Ég skrifaði undir samning við húsið þar sem skýrt er tekið fram að ég hafi húsið á leigu frá klukkan 8 að morgni til klukkan 03 eftir miðnætti. Eðlilega miðast leigan við að á umsömdum tíma hef ég húsið fyrir mig og á að geta gengið til minna verka. En svo var aldeilis ekki því kvöldið áður var popphljómsveit með tónleika. Aðkoman mín var satt að segja skelfileg bæði í sal á sviði og í búningsherbergjum. Drasl, rusl, tómar flöskur af öllum gerðum, pizzabox og matarúrgangar, tóbalksafgangar og fullir öskubakkar, ósamantekin hljóðfæri eins og hráviður um allt svið, snúrur og dót. Fnykur hússsins þungur og allt í ólestri. Allt þetta skilja hljómsveitarmenn eftir sig vitandi að aðrir þurfa að komast í húsið daginn eftir. Hafi ég einhverntíma orðið vitni að ófaglegum og tillitslausum vinnubrögðum þá er það við svona skilyrði. Aumingjar og aular hafa alltaf þá stefnu að reyna að láta aðra gera verkin sín.
Ég ætla ekki að fara að tíunda hér hvað það er að standa fyrir stórskemmtun einn síns liðs og allan þann undirbúning sem miðast við framkvæmdir á tónleikadaginn. En ég ætla aðeins að stikla hér á slíkum degi sem á sér langan aðdraganda því allur undirbúningur fyrir sjálfa tónleikana skiptir mánuðum. Tónleikadagurinn er frá snemma morgni til síðla nætur þéttskipaður atburðum sem verða að standast til að allt gangi upp. Allur sá dagur er gríðarlegt álag á mig sem einstakling því sækja verður og setja up sviðsmynd, koma öllum mínum tækjum og tólum og fatnaði á réttan stað, koma hljómsveit fyrir og æfa með hljómsveit,hljóðmanni og ljósamanni, sjá um plötusölubás og koma öllu þangað, skreppa marg oft frá í alskonar viðtöl og vera tilbúinn í viðtöl á staðnum, leysa ótal vandamál sem koma upp og að lokum samræma alla heildina og geta skroppið frá í sturtu og skipta um föt áður en maður stígur fram á sviðið og skemmtir fólki í rúma tvo tíma.
En þegar ég mætti semsagt í Austurbæ mátti ég bíða fram yfir hádegi á meðan verið var að þrifa til svo ég gæti hafist handa. Þetta tafði allt starf mitt og míns fólks og tók af okkur dýrmætan tíma. Þarna bitnar aulaháttur þeirra sem ekki kunna til verka á öðrum og eyðileggur og tefur algjörlega að þarflausu. Útkoman sú að ég náði ekki að gera allt það sem ég þurfti að gera. Öll mín vinna tafðist og ég missti af viðtölum á útvarpsstöðum auk þess skópust ýmis óþarfa leiðinda atvik. Það er augljóst að öll slík leiðindi er hægt að forðast ef forráðamenn hússins taka umsjón þess fastari tökum og er þeirri áskorun minni hérmeð komið til þeirra.
Ef ljóður er á umgegni í húsinu er ráðið er ákaflega einfalt; ef leigjendur ganga ekki frá eftir sig þá lætur húsið taka til eftir sýningu og heldur öllum tækjum og tólum viðkomandi sem panti upp í kostnað auk þess sem viðkomandi aðili fær ekki aftur inni í húsinu. Það er von mín að aðstandendur hússins taki mark á því sem ég hef hér sagt.
Hörður Torfa