Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Um Búsáhaldabyltinguna.(Vegna fyrirspurna)

hordursjalfur's picture
  1. Það er ítrekað kallað eftir áliti mínu hér í þessari umræðu um Búsáhaldabyltinguna hér á FB vegna ummæla Geir Jóns yfirlögregluþjóns.Í stuttu máli; útifundirnir voru mín hugmynd og leikfléttan eftir því. Hafi Geir Jón sagt í fréttum að þessum atburðum hafi verið stýrt af þingmönnum þá kalla ég hann hér fullum fetum lygara líkt og alla þá sem slíkt segja. Undanfarin ár hef ég bæði hlustað og lesið allskonar "séfræðinga" fjalla um það sem gerðist og bullið vellur útúr mörgum þeirra í allar áttir. Ég færði dagbók um atburðina og mér til aðstoðar var heill hellingur af fólki og nokkrir sem stóðu mér nær en aðrir og engin þeirra bundinn nokkrum stjórnmálaflokkum. Ég hef sem listamaður haft það á stefnuskrá minni í áratugi, og aldrei farið leynt með það, að ég er að hafa jákvæð áhrif á samfélag mitt og hef gert það. Ég hef aldrei verið og mun aldrei vera í stjórnmálaflokki og hugmyndir mínar og starf hefur verið byggt á mannréttindum. Hlustið bara á söngva mína og sögur. Ég bý yfir nægum skriflegum sönnunum til að geta sannað mál mitt. Nefni ég til sögunnar baráttuna fyrir réttindum samkynhneigðra og stofnun Samtakanna ´78 og allar ferðir mínar í kringum landið í áratugi til að beina hugum manna að nauðsyn fjölbreytileikans í mannlífinu. Virðinguna fyrir sjálfum sér og þar með öðrum og ekki síst samvinnunni. Búáhaldabyltingin er einmitt mjög fallegt dæmi um slíka samvinnu og fjölbreytileika. Ég lýsti þessu sæmilega í bók minni "Tabú" sem kom út í nóvember 2008. En það var lítið sem ekkert um hana fjallað og sennilega var það af ráðnum hug þeirra sem um hefðu átt að fjalla. Ég nefni líka framlag mitt við mótmælin útaf Paul Ramses, sumarið 2008, nú og svo skipulag og útfærslan öll í "Búsáhaldabyltingunni". Hvað haldiði þið að ég hafi verið að gera samfellt í 5 mánuði? Leika mér? Ég var með aðstoðarfólk og hafði sæg ráðagjafa og útfærði hugmyndir með þeim. Geir Jón má vel hafa fengið Fálkaorðuna fyrir "stjórnað mótmælunum" en svo sannnarlega kom hann ekki nálægt stjórnun "Búsáhaldabyltingarinnar" öðruvísi en þjónn laganna. Og svo sannarlega var það ekki hann sem stillti til friðar á Austurvelli daginn eftir atvikið við Stjórnarráðið þegar drukkið kráarlið veittist að lögreglu og hugrakkur hópur friðsamlegra mótmælenda mynduðu varnarvegg fyrir framan lögregluna. Strax morgunin eftir greip ég í taumana ásamt mínum dygga "appelsínugula her" og við stilltum til friðar.    
  2. Ég bendi ykkur á að erlendir fréttamenn sem hafa verið hér á landi, margir þeirra frá stærstu fjölmiðlum heims, hundruðum saman, hafa rætt við mig nánast viðstöðulaust undanfarin ár. Hjá þeim er það ekkert flólkið að sjá heildarmynd mótmælanna og framlag mitt. Ég hef verið boðinn í fyrirlestrarferðir víða um heim til að útskýra baráttuaðferðir mínar og útfærslur og svara spurningum um hvað gerðist og hvernig. Það er táknrænt að hér á landi er margt fólk svo blindað að það sér ekki staðreyndir, eða það vill ekki að sannleikurinn komi fram ýmissa hluta vegna. Öll  skjöl og heimildir um það sem í raun og veru gerðist og hvernig allt átti sér stað verður gefið Þjóðskjalasafni og þar eru heimildir sem myndu koma bullurum mjög á óvart. 
  3. Menn ættu að hugleiða hversvegna íslenskir fjölmiðlar (fyrir utan Grapevine) hafa forðast að ræða við mig og látið sem Búsáhaldabyltingin "hafi gerst af sjálfu sér" Satt best að segja finnst mér ekki skipta máli í dag hvernig Búsáhaldabyltingin átti sér stað - því ég get pollrólegur fullyrt að hún heppnaðist 100% af því að fólk tók undir þær hugmyndir og var opið fyrir þeim skilaboðum sem send voru út í samfélagið á mínum vegum. Það eitt skiptir máli. Atburður eins og "Búsáhaldabyltingin" er nokkuð sem gerist nefnilega ekki "af sjálfu sér". Eða hversvegna hefur slíkur atburður þá ekki gerst aftur? Reiðin og óánægjan er margfalt meiri í samfélaginu í dag en haustið 2008. Og það hafa verið gerðar margar tilraunir í þá veru en engin þeirra heppast neitt í líkingu við "Búsáhaldabyltinguna". Getiði hversvegna. Er það ekki vegna þess að það hefur enginn kunnað, þorað né getað stjórnað mótmælum?PS: Svo engin misskilningur verði þá er ég ekki að tala um stjórnun mótmæla almennt heldur atburð í líkingu við Búsáhaldabyltinguna sem stóð yfir í 5 mánuði. Frá 11okt.2008 til 14 Mars 2009.