Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Bergmál 71/02

hordursjalfur's picture

Þá er hún loksins komin á markaðinn platan sem margir hafa beðið eftir. BERGMÁL heitir platan með úrvali söngva Harðar Torfa. Á þessari plötu er að finna 14. af þekktari söngvum hans auk tveggja nýrra. Það gefur auga leið að eftir jafn langan og gæfuríkan feril þá rúmast ekki allir bestu söngvar Harðar Torfa á einni plötu og þessi því aðeins sú fyrsta af þremur. Þessi plata er kjörin fyrir þá sem lítt eða ekkert þekkja til verka Harðar því hún gefur góða innsýn inn í hugarheim hans, lífsviðhorf, efnistök og stíl. Söngvar þessir voru valdir á plötuna með dyggilegri aðstoð aðdáenda Harðar hér á heimasíðunni. Fjölbreytileiki í efnismeðferð og einstaklega vel samdir textar hans sem skipa honum á bekk með bestu textahöfundum íslendinga að ekki sé minnst á hrífandi einlægni hans í túlkun og lagaperlurnar. " Hann hefur ferðast um landið í ríflega þrjá áratugi í anda hins sanna förusveins, sem fer um lönd með orðið og gígjuna eina að vopni, aldrei með fingur á lofti, heldur spegil, töfraspegil, sem sýnir hverjum sem í hann horfir það sem trúbadorinn sér og bergmálar það sem hann heyrir. Og einsog aðrir slíkir, sem eitthvað er spunnið í, þá skilur hann eftir sig spor, hvar sem hann drepur niður fæti. Ósýnileg spor, sem þessvegna er aldrei hægt að afmá." segir Ævar Örn Jósepsson rithöfundur í bókinni sem fylgir disknum. Útgáfu og dreifingu annast Edda, miðlun og útgáfa.