Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

1971-1980

hordursjalfur's picture

1980

# Í ársbyrjun byrjaði aftur í ísverksmiðunni Premier í Kaupmannahöfn fram í sumarið.
Ég hélt hausttónleika mina í Lundi og Kaupmannahöfn. Ákvað að fara ekki til Íslands þetta árið heldur koma mér upp góðu heimili og hvíla mig á áreitni og rækta sjálfan mig. Ná áttum. 

1979

# Í ársbyrjun leikstýrði ég „Beðið í myrkri" í Hrísey. Gerði leikmynd og lýsingu. Frumsýnt 16 febrúar.
# Fór í til Dalvíkur, Grenivíkur og Húsavíkur og gekk um götur þeirra til að vera sýnilegur. Reifst ekki við fólk né svaraði háðsglósum. Vonlaust að halda tónleika.  
# Átti samtal við Guðna Baldursson um gang réttindabaráttunnar. Stefnan var óbreytt; að tengjast alþjóðlegum samtökum um réttindabaráttu okkar og að finna íslenskt stjórnmálafólk sem sýndi málefni okkar skilning. Lét Guðna fá hluta leikstjóra launa til að styrkja starfsemi S´78.
# Frétti af hvernig skemmtikraftar gerðu sér mat af kynhneigð minni. Ég var svo frægur að slíkt virkaði. Pabbi gekk út af skemmtun sem hann fór á því hann varð svo reiður hvernig hæðst var að mér.
# Fór til Kaupmannahafnar. Það var vinna að fá sér vinnu í atvinnuleysinu. En það gekk eftir. Hóf störf í verksmiðunni Premier is í Glostrup í Kaupmannahöfn 21 mai. Hætti þar 23 nóv.
# Sótti um kvikmyndaleikstjórn 6 febrúar hjá Dramatiska Institudet í Stokkhólmi. Fékk inni með því skilyrði að ég byggi í Svíþjóð í eitt ár til að læra málið sem mér fannst skrýtið þar sem ég átti ekki í neinum vandræðum með að skilja málið þó framburðurinn vefðist fyrir mér.
Frétti af því að Jón Viðar Jónsson tók málefni S´78 til umfjöllunar í útvarpsþættt á Íslandi. Þetta mjakast.
Hélt hausttónleika í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. 

1978

# Í Janúar notaði ég mikinn tíma í að ræða við menn um að stofna baráttusamtök, fá þá til liðs við mig í baráttunni til að gera fleiri en mig sýnilega svo ég stæði ekki einn í þessari baráttu. Það var ekki auðvelt að bera einn þessa byrði. Fleiri urðu að koma til, verða sýnilegir. Sýna samstöðu. Vinna saman að málefninu. Safna röksemdum og staðreyndum. Rífa okkur útúr niðurlægjandi aðstöðu sem við áttum sjálfir mikla sök á. En það var áberandi hversu menn voru hræddir og höfðu lítið sem ekkert til málanna að leggja né vilja til að breyta ástandinu. Nokkuð sem mér þótti einkennilega var að ég fékk ekkert leikstjóraverkefni á þessum háannatíma leikstjóra. Þrátt fyrir að vera almennt álítinn vandaður og góður leikstjóri að mati þeirra sem höfðu haft mig í vinnu. Ég var greinilega fallinn í ónáð. 

# Seinni hluta janúar fékk ég frekar óvænt heimsókn eina helgina frá hópi sjómanna á Ólafsvík. Þetta voru strákar sem ég hafði rætt við eina kvöldstund um fgatapólitík, málefni homma og lesbía og stöðu okkar í íslensku samfélagi. Hópurinn mætti heim til okkar Rolvs ásamt kærustum og eiginkonum og við slógum upp matarveislu og síðan var stefnt á skemmtistað. Fyrir valinu varð diskótekið SESAR. Þangað hafði ég aldrei komið og þetta var í fyrsta sinn þennan vetur sem ég fór á skemmtistað. En þegar tilkom var mér meinaður aðgangur, mér og öllum öðrum til mikillar undrunar. Hópurinn fór því á annann skemmtistað. Ég ég bað dyraverðina um að skila til eiganda SESARS að ég myndi mæta á mánudagsmorgni og ræða við hann.

# Mætti á mánudagsmorgni á skrifstofu SESARS tog ræddi við eigandann, Val, um þá framkomu að meina mér um aðgang. Hafði með mér tvö vitni, þá Harald Tómasson og GUðmund Sveinbjörnsson. Valur hafði fá svör en satðfesti að hommar fengju ekki aðgang að staðnum. Niðurstaðan varð sú að ég tilkynnti honum að ég myndi standa fyrir herferð gegn staðnum og hvetja allt fólk sem ég og vinir mínir þekktu og hvetja þau til að sniðganga staðinn hér eftir. Eftir það fórum við og lögðumst í símhringingar næstu daga til allra sem við þekktum með þau skilaboð að hér eftir myndi engin sækja SESAR því þessi framkoma væri ólíðandi með öllu. Svo voru allir beðnir um að láta þessi skilaboð berast til allra sem þau þekktu. Þessi herferð okkar virtist bera árangur því stuttu seinna var staðnum lokað.   

# Það var um 10 leitið að morgni 9 febrúar að ég var spurður hvort ég þyrði að taka að mér uppsetningu hjá MA á Hlaupvídd sex. Klukkan 1 var ég kominn í loftið með hálft handrit. Þetta gerðum við á 26 dögum. Skissað leikmynd í flugvélinni. Eftir skemmtileg samskipti við drífandi nemendur tókst að ljúka uppsetningunni á 22 dögum. Töf varð á að komast inn í leikhús Akureyringa eins og um hafði verið samið þar sem engin trúði að hægt væri að setja leikrit með söngvum upp á svona stuttum tíma.. Við fengum þó þrjá daga til að aðlaga leiktjöld og leikara og setja upp ljós. Frumsýning tókst mjög vel. Þessi staða olli mikilli umræðu meðal nemenda og mín annarsvegar og við leikhússtjóra LA Brynju Ben um skipulagningu, hraðar hendur, klára krakka, skemmtilega tónlist, skemmtilega samvinnu og gott leikrit og svo um að gera það ómögulega. Allt væri hægt ef viljinn væri fyrir hendi og gott skipulag. Það rann upp fyrir mér að ég varð að skipta um aðferð við að stofna baráttusamtök. Frá því að ég hafði byrjað að tala um slíkt átta árum áður hafði ekkert gengið og engin breyting orðið þó ég hefði stigið fram fyrir skjöldu með viðtalinu 1975. Fram til þessa hafði ég einblínt á sundraðan og særðan hóp þar sem hver kúrði í sínu horni og vonaðist til að það væri nóg. Það var vonlaust að við myndum finna lausn í samvinnu. Ég gæti þetta ekki einn og yrði að finna mann sem gæti leitt samtökin áfram. Ég mátti ekki leiða verkið lengra því þá væri hættan á að þetta færi að snúast um mig en ekki málefnið. Markmiðið var að virkja fleiri og styrkja og sameina hópinn. Ég var atvinnuleikstjóri og þannig átti ég auðvitað að vinna að stofnum baráttusamtaka. Ég einsetti mér að taka málið þannig og þá fór verkefnið loks að skila árangri. Það var mikið og krefjandi verk. Mér fannst ég bera mikla ábyrgð. Ég hafði hafið þessa baráttu og mér bar skylda til að koma henni í gagnið. En ég var að renna út á tíma. Reynsla mín sem leikstjóri skipti mestu. Þarna urðu sinnaskipti og ég hóf að vinna mjög kerfisbundið og hratt. Leitaði að öðrum samkynhneigðum einstaklingi sem hafði annað en partýstand sem aðaltilgang lífsins. Loks hitti ég mannin sem ég hafði leitað að; Guðna Baldursson. Þarna tók að rofa til og sjást til lands. Guðni skyldi pólitískt markmið og aðferðir og var vel inn í þeirri hugsun. Styrkur hans lá í að hann var fastráðinn hjá ríkinu og átti eigin íbúð. Betri og öflugri samstarfsmann var ekki hægt að hugsa sér. Hann gerði sér grein fyrir þeim erfiðleikum sem framundan voru en axlaði starf sitt með glæsibrag, þrátt fyrir að ég neyddi hann til að taka að sér starfið. Rök mín voru að ég bjó sífellt við hótanir, fékk hvergi vinnu nema sem leikstjóri og það var ekki nóg til að lifa af og að ég var stórskuldugur og yrði að finna mér vinnu í Kaupmannahöfn. En ég yrði honum alltaf innan handar ef á þyrfti að halda. Við tókumst í hendur sáttir og ég sagði í gríni við hann að næstu árin myndi hann sjá um Reykjavík en ég um landsbyggðina. Ég stefndi að því að fara að heimsækja öll þorp í landinu. Það var hluti af baráttunni. Það hafði loks tekist að stofna baráttusamtök fyrir réttindum samkynhneigðra á Íslandi. Samtökin ´78 og það gerðist þann 9 mai 1978. heima hjá mér í Sólheimum 25,  Ég flutti aftur til Kaupmannahafnar 1.júni.
# Sýnileikuinn eru sterkustu rökin, er niðurstaða eftir skemmtilegar samræður við nemendur MA. 
# Ég hélt hausttónleika mína í Jónshúsi Kaupmannahöfn.
# Frá 9 nóv.til 17 des. setti ég upp „Jörund Hundadagakonung“ fyrir leikfélag Stykkishólms. 
# Fór í tónleikaferðir um nesið og nágrenni. Dræm aðsókn. Gekk um götur þorpa.

1977

Í ársbyrjun kom Reynir Oddsson til Kaupmannahafnar og bjó ókeypis í herbergi mínu en ég dvaldi hjá mömmu í næsta uppgangi. Við hófum klippivinnu og hljóðsetningu á „Morðsögu” úti í Klampenborg. Myndin var frumsýnd í Reykjavík um vorið. Algjör svik RO við mig um umsamin tuttugu og tveggja mánaða laun og þar sem hann uppnenfndi mig "kynvillingsdruslu" auk ýmissa hótanna frá öðrum urðu til þessa að ég flúði land stórskuldugur og illa á mig kominn. Reyndi sjálfsmorð en áttaði mig á síðustu stundu og hætti við. Ákvað að takast á við mannréttindabaráttu á Íslandi og hóf undirbúning þess sem fólst í að beitra sýnileika og ferðast um Ísland.
# Þann 1 september mætti ég til Íslands gagngert til að stofna pólitísk baráttusamtök um réttindi homma og lesbía. Ég hófst strax handa en mætti þögn og undanslætti þeirra homma sem ég ræddi við. Ótti manna við afhjúpun risti djúpt. Flestum fannst betra að vera í felum en frjáls. Þetta var lærdómsríkt og áhugavert fyrir mig. En ég gasfst ekki upp. Ræddi við marga. 
Ég sviðssetti " Frænku Charleys" í Ólafsvík um haustið. Gerði bæði leikmynd og lýsingu.
Ég hélt hausttónleika mína í Ólafssvík. 
#  Hélt tónleika hér og þar um landið við mjög dræmar undirtektir en mjög lærdómsríkum og áhugaverðum árangri. Fljótt skiptast veður í lofti. Ég man þá tíð þegar fólk dýrkaði mig og söngva mína. Gekk þó um götur þorpa til að vera sýnilegur.
Ég vann fram til jóla að stofna Samtökin '78. Mjög erfitt þar sem aðrir áræddu ekki að vera með eða skyldu ekki hvað ég var að tala um. Ég komst fljótlega að þeirri niðurstöðu að þetta áhugaleysi stjórnaðist fyrst og fremst af hræðslu. Hræðslu við að missa vinnu og húsnæði ef það fréttist að menn væru hommar.  

1976

Í ársbyrjun æfði ég allt efni í nýja plötu niðrá Hótle Vík. Plötu sem mig langaði að gera. Plötu sem lýsti hverdaglegu lífi mínu og viðhorfum. Svona að sýna inní líf hommans. Ég fékk Benna bróður (Benedikt Már) til að spila með mér á gítar og radda. Nokkuð sem við bræðurnir höfðum gert í áraraðir. Benni kallaði til vin sinn Svein Magnússon til að spila bassa og ég hóaði í vinkonu mína Lindu Gísladóttur til að radda með okkur Benna. Að lokum fékk ég svo heiðursmanninn Reyni Sigurðsson til að setja inn áslátt hér og þar. Plata var tekin upp í Tóntækni og upptökumaður var Sigurður Árnason.
Í febrúar/ mars leikstýrði ég "Línu Langsokk" á Ísafirði. Gerði einnig leikmynd og lýsingu.
Í febrúarlok gaf ég út hljómplötuna Dægradvöl og er þar með orðinn sjálfstæður plötuútgefandi. Plötunni var fálega tekið og jafnvel fjandsamlega enda var ég viljandi að feta nýjar og óvenjulegar leiðir bæði í túlkun og framsetningu. Platan fjallaði einfaldlega um dagsdaglegt líf mitt. Líf hommans.
Ég vann við undirbúning við Morðsögu frá april en við tökur allt sumarið fram á haust og síðan vann ég einn við klippingu myndarinnar í studio Vilhjálms Knudsen í Brautarholti í Reykjavík. 
Ég hélt fyrstu hausttónleika mína í september í Svarta salnum á Hótel Vík.  
# Ég hélt tónleika hér og þar um landið með athyglisverðum og lærdómsríkum árangri.
# Í nóvemberlok yfirgat ég Hótel Vík og fór til Kaupmannahafnar. Allri filmuvinnu var lokið á Íslandi og við áætluðum að byrja að klippa Morðsögu strax í janúar. Ég tók herbergi á Peder Skramsgade 16 á leigu.

1975

Í janúar og febrúar leikstýrði ég " Á útleið" á Borgarfirði eystri. Gerði leikmynd og lýsingu. 
Í mars - apríl leikstýrði ég " Deleríum Búbónis " á Siglufirði. Gerði leikmynd og lýsingu. 
Í júlibyrjun hóf ég samstarf með Reyni Oddssyni. Hann bauð mér starf sem aðstoðarleikstjóri við gerð kvikmyndarinnar " Morðsaga ". Ég hafði verið á förum til Kaupmannahafnar og var húsnæðislaus. Ég brá á það ráða að ræða við Karl, eiganda Hótel Víkur, um að ég tæki að mér að sjá um allt sem laut að leigjendum hótelsins, mátti ráða og reka að vild, og hafa eftirlit með allri umgengni Hótel Víkur.Ég fékk frítt húsnæði og öll lyklavöld. Karl sá um að rukka fyrir húsaleigu og allt sem snéri að peningamálum.  Flutti strax inn á Hótel Vík og í fyrstu var þar mistöð allrar undirbúningsvinnu fyrir Morðsögu.  
Þann 1 ágúst birtist viðtal við mig í tímaritinu Samuel þar sem ég lýsti því yfir að ég væri hommi. Ég fann neikvæð viðbrögð umsvifalaust. Viðtalið hafði gríðarleg áahrif og var að öllum líkindum lesið af hverjum einasta íslendingi. Þarna kom greinilega í ljós áhrif þess að vera þekktur og eftirsóttur.   
Um haustið varð hlé á gerð myndarinnar " Morðsaga " ýmissa orsaka vegna en aðallega vegna þess að okkur hafði ekki tekist að ljúka öllum tökum. Ég sat einn í stúdíói í Vilhjálms Knudsen í Brautarholti og grófklippti allar tökur sumarsins og vann áætlanagerð fyrir áframhaldandi starf við kvikmyndina næsta vorog sumar.  
Í október - nóvember leikstýrði ég " Hart í Bak " í Ólafsvík. Gerði leikmynd og lýsingu. Og samhliða þeirri uppsetningu samdi ég og sviðssetti barnaleikrit með söngvum " Barnagaman " fyrir leikfélag Ólafsvíkur. Gerði einnig leikmynd og lýsingu.  # Í desember samdi ég texta og tónlist fyrir nýja plötu sem átti að lýsa dags daglegu lífi mínu, hommans.

1974

Í ársbyrjun var ég með í verkefninu „Köttur úti í mýri“
Leikstýrði leikritinu " Sandkassinn " á Norðfirði. 10 mars – 19 apríl. Samdi alla tónlist við verkið. Messíana Tómasdóttir gerði leiktjöld og búninga. Verkið tekið aftur upp 1 september og vann ég með þeim að því í 10 daga.
# 19 febrúar var ég með í sjónvarpsþættinum „Það eru komnir gestir“
29 apríl hóf ég að vinna með leikhópi frá Hafnarfirði. Ég þýddi leikrit úr sænsku, fyrir Leikfélag Hafnarfjarðar í Bæjarbíói, sem hlaut nafnið " Leifur, Lilla, Brúður og Blómi." Ég lék líka með í verkinu hlutverk Lilla og fleiri hlutverk. Ég hannaði einnig leikmynd. Verkið er sýnt um vorið og síðan farið með það í ferðalag út á land. Byrjuðum 19 júní á Höfn í Hornafirði, 20 Fáskrúðsfirðir, Reyðrfjörður 21, Norðfjörður, Seyðisfjörður, Borgarfjörður Eystri, Vopnafjörður, Þórshöfn, Raufarhöfn, Ólafsfjörður. Sýndum líka um haustið í Menntaskóla Hamrahlíðar, Flensborgarskóla, Öldutúnsskóla, Vogaskóla, Breiðholtsskóla,Víðistaðaskóla og Árbæjarskóla og Lindarbæ.
# Gat ekki tekið að mér öll verkefni sem mér bárust. 
# Ég var kosinn framkvæmdarstjóri Leikfélags Hafnarfjarðar ásamt Þóru Lovísu Friðleifsdóttur sem ritara og Gunnari Magnússyni sem gjaldkera.
Ég leikstýrði leikritinu " Barn skal það vera " í Ólafsvík. 30 okt – 10 des. Gerði leikmynd og lýsingu.
# Ég ákvað að losa mig alveg út úr hefðbundnu leikhúsi og vinna sjálfstætt sem eins manns leikhús. Semja allt efni sjálfur og verða minn eigin umboðsmaður. Tónleikhús með áherslu á sögur og söngva. Sagði upp stöðu minni sem framkvæmdastjóri Leikfélags Hafnarfjarðar. Sem listamaður hafði ég fram ti lþessa verið að afla tekna sem aðrir hirtu og svo var dónaskapurinn og smættunin gagnvart mér sem homma orðin óþolandi. Andstætt öllum ráðleggingum flestra ákvað ég að gerast sjálfstæður listamaður og sjá um öll mín mál sjálfur. Loks fór ég að sjá peninga fyrir vinnu mína við tónlistarflutning. Lenti þó fljótlega í vanda þar sem ég neitaði að troða upp á fylliríssamkomum, en það var þess virði.
Flaug stutta ferð til London og ræddi við leiklistarskóla þar um leikstjóranám. Þeir skoðuðu pappíra mína og gögn en ráðlögðu mér að halda áfram á þeirri braut sem ég væri á nema "ef ég vildi setja mig í skuldir til að læra það sem ég þegar kunni" eins og þeir sögðu.

1973

Ég lék hjá Þjóðleikhúsinu fram á vor ( Leikár 73/74) Indjánar - Cabarett - 28 sept.´73 Hafið blá hafið - Diego. 
Um sumarið lék ég í sjónvarpskvikmyndinni " 65.grein lögreglusamþykktarinnar " eftir Agnar Þórðarson í leikstjórn Baldvins Halldórssonar, og fór þar með hlutverk einkabílstjórans Axels.
Ég flutti söngva mina á ýmsum skemmtunum og tónleikum víða um land. 
# Ég var farinn að lenda í vandræðum við fólk sem vildi niðurlægja mig vegna þess að ég var hommi. Ekki að ég væri að auglýsa það heldur vegna þess að ég var ekkert að fela það. Hippaboðskapinn um frjáldar ástir tók ég alvarlega.

Var boðaður á fund hjá auglýsingastofu sem vildi fá mig til að semja lag á gítarinn „eins og; Ég leitaði blárra blóma“ því þeir vildu nota það í auglýsingu. Þetta fór fyrir brjóstið á mér. Auðvitað hafnaði ég þessu. 

1972

Ég leikstýrði "Melkorku" eftir Kristínu Sigfúsdóttur í Ólafsvík. Gerði einnig leiktjöld og lýsingu. Búningar frá Þjóðleikhúsinu.
Íslenska sjónvarpið gerði annan þátt þar sem ég flutti eigin lög og texta annarra.
# Önnur breiðskífa mín „ Án þín" kemur út.
# Tróð upp í Vaglaskógi 26.07
Um haustið lék ég hjá Þjóðleikhúsinu og út leikárið. 
Kom fram á ýmsum skemmtunum víða um land.
Starfaði sem ljósmyndafyrirsæta.

1971

Er í Kaupmannahöfn og starfa þar sem leikari með íslenskum listamönnum í leikhópi sem kallar sig Andróklesaleikhópinn. Við settum upp eina farandleiksýningu “Andrókles og ljónið”, eftir Ólaf Hauk Símonarson.
Um vorið spilaði ég ásamt Benna bróður mínum í Vise Vers huset í Tívolí í Kaupmannahöfn. Þar fékk ég boð um að koma til Wasington D.C og troða þar upp og skoða möguleika á ferli í USA.
# Auglýsing í Mogganum 21 apríl: Hver er Hörður Torfa? Fyrsta sendin plötu hans seldist upp á 3 vikum! (SG plötuútgáfa)
Í júní byrjun kom ég til Íslands til að gera plötuna  „ Án þín”
Starfa sem ljósmyndafyrirsæta í ýmsum auglýsingum.
Ég tók virkan þátt í starfsemi þjóðlagaklúbbsins Vikivaki í Tónabæ.
Í október fór ég til Wasington D.C. og tróð þar upp í klúbbum og er boðin vinna í leikhúsi. Afþakkaði og fór aftur til Íslands.
# Leikstýrði fyrir leikfélag í Garðabæ í nóvember og desember  " Andrókles og Ljónið " en ekki varð úr sýningum.